Umsókn um nýtt starfsleyfi barst 18. janúar 2021. Umsækjandi fyrir hönd Sementsverksmiðjunnar er Gunnar H. Sigurðsson.
Í umsókn kemur fram að : Fjögur 4000 tonna sementssíló eru staðsett í nágrenni við Faxabryggju á Akranesi. Sement er flutt til landsins í sérútbúnum flutningaskipum sem flytja allt að 7200 tonn af sementi í hverri ferð. Sementi er dælt í sementssíló frá Faxabryggju. Afköst við dælingu eru 120-170 tonn/tímann.
Við móttöku sements er sólarhringsvakt í birgðastöð til að tryggja að sement dælist í rétt síló og til að fylgjast með löndunarbúnaði einkum með tilliti til sementsleka og að tryggja að sementssíló fyrirfyllist ekki. Við löndun og áfyllingu í sementstanka er haldið undirþrýstingi með búnaði sem er ofan á tönkunum/sílóum í tengibygginu..
Um 95% af innfluttu sementi er selt í lausu. Því er lestað í sementsbíla og dreift til viðskiptavina. Aðstaða er til pökkunar sements í stórsekki í birgðastöð. Sekkjun fer fram innandyra.
Hægt er að blanda kísilryki við sementið og er það sótt á sementsbílum til Elkem á Grundartanga. Dreifing sements til viðskiptavina er ekki háð starfsleyfi Sementsverksmiðju.
Starfsleyfið er auglýst á tímabilinu 4. maí – 1. júní 2021.
Umhverfisstofnun gaf áður út starfsleyfi fyrir Sementsverksmiðjuna þann 5. desember 2008 fyrir sementsframleiðslu. Þeirri starfsemi hefur nú verið hætt og með umsókn um niðurfellingu starfsleyfis dags. 15. mars. 2021 óskaði Sementsverksmiðjan eftir því að það leyfi félli úr gildi.
Leyfið verður útgefið samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998, sbr. IV viðauka og 38. tl. um geymslu hættulegs efnis, laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og reglugerðar nr. 550/2018 reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit.
Einnig skal fyrirtækið hlíta ákvæðum annarra laga og reglugerða sem um starfsemina gilda á hverjum tíma og skilyrðum á fylgiskjali með útgefnu leyfi.